Terrosa®

Pre-filled Pen

Myndband

Fylgiseðill

Fylgiseðill: Upplýsingar fyrir notanda lyfsins

Terrosa 20 míkrógrömm/80 míkrólítra stungulyf, lausn í áfylltum lyfjapenna
teriparatid

Lesið allan fylgiseðilinn vandlega áður en byrjað er að nota lyfið. Í honum eru mikilvægar upplýsingar.

  • Geymið fylgiseðilinn. Nauðsynlegt getur verið að lesa hann síðar.
  • Leitið til læknisins eða lyfjafræðings ef þörf er á frekari upplýsingum um lyfið.
  • Þessu lyfi hefur verið ávísað til persónulegra nota. Ekki má gefa það öðrum. Það getur valdið þeim skaða, jafnvel þótt um sömu sjúkdómseinkenni sé að ræða.
  • Látið lækninn eða lyfjafræðing vita um allar aukaverkanir. Þetta gildir einnig um aukaverkanir sem ekki er minnst á í þessum fylgiseðli. Sjá kafla 4.

Í fylgiseðlinum eru eftirfarandi kaflar:

  1. Upplýsingar um Terrosa og við hverju það er notað
  2. Áður en byrjað er að nota Terrosa
  3. Hvernig nota á Terrosa
  4. Hugsanlegar aukaverkanir
  5. Hvernig geyma á Terrosa
  6. Pakkningar og aðrar upplýsingar

1. Upplýsingar um Terrosa og við hverju það er notað

Terrosa inniheldur virka efnið teriparatid sem er notað til að styrkja beinin og draga úr áhættu á beinbrotum með því að örva beinmyndun.

Terrosa er notað til meðferðar við beinþynningu hjá fullorðnum. Beinþynning er sjúkdómur sem veldur því að beinin þynnast og verða brothætt. Þessi sjúkdómur er sérstaklega algengur hjá konum eftir tíðahvörf, en getur einnig komið fram hjá karlmönnum. Beinþynning er einnig algeng hjá sjúklingum sem eru á lyfjum sem kallast barksterar.

2. Áður en byrjað er að nota Terrosa

Ekki má nota Terrosa

  • ef um er að ræða ofnæmi fyrir teriparatidi eða einhverju öðru innihaldsefni lyfsins (talin upp í kafla 6).
  • ef þú ert með mikið magn af kalki í blóðinu (fyrirliggjandi hækkun kalks í blóði).
  • ef þú ert með alvarlega skerta nýrnastarfsemi.
  • ef þú hefur verið með æxli í beinum eða ef önnur krabbamein hafa myndað meinvörp í beinum.
  • ef þú ert með ákveðna beinasjúkdóma. Ef þú hefur beinasjúkdóma, segðu lækninum frá því.
  • ef þú ert með óútskýrðan hækkaðan alkalískan fosfatasa í blóðinu, sem gæti þýtt að þú sért með Pagetssjúkdóm í beini (sjúkdómur með óeðlilegum breytingum í beini). Spurðu lækninn ef þú ert ekki viss.
  • ef þú hefur farið í geislameðferð sem tengist beinum.
  • ef þú ert þunguð eða með barn á brjósti.

Varnaðarorð og varúðarreglur

Terrosa getur valdið aukningu á kalki í blóði eða þvagi.

Leitið ráða hjá lækninum fyrir eða meðan á notkun Terrosa stendur:

  • Ef þú hefur langvarandi ógleði, uppköst, hægðatregðu, ert orkulaus, eða vöðvaslappleika. Allt þetta geta verið einkenni um of mikið kalk í blóði.
  • Ef þú ert með nýrnasteina eða hefur fengið nýrnasteina.
  • Ef þú ert með nýrnavandamál (miðlungs mikið skerta nýrnastarfsemi).

Sumir sjúklingar geta fundið fyrir svima eða hraðari hjartslætti við notkun fyrstu skammtana af Terrosa. Þegar fyrstu skömmtunum af Terrosa er sprautað inn þá skal gera það á stað þar sem hægt er að setjast strax eða leggjast út af ef þig svimar.

Ekki á að lengja meðferðartíma fram yfir 24 mánaða ráðlagða meðferð.

Áður en þú byrjar að nota nýjan áfylltan lyfjapenna skaltu skrifa niður lotunúmer (Lot) lyfsins og dagsetningu fyrstu inndælingar á ytri öskju áfyllta lyfjapennans og á dagatal og gefa síðan þessar upplýsingar upp ef tilkynna þarf um aukaverkanir.

Terrosa má ekki nota hjá ungu fólki sem er enn að vaxa.

Börn og unglingar

Terrosa má ekki gefa börnum eða unglingum (undir 18 ára aldri).

Notkun annarra lyfja samhliða Terrosa

Látið lækninn eða lyfjafræðing vita um öll önnur lyf sem eru notuð, hafa nýlega verið notuð eða kynnu að verða notuð.

Þetta er mikilvægt, því sum lyf (t.d. dígoxín/digitalis, lyf sem eru notuð við hjartasjúkdómi) geta haft milliverkanir við teriparatid.

Meðganga og brjóstagjöf

Þú mátt ekki nota Terrosa ef þú ert þunguð eða með barn á brjósti. Ef þú ert kona á barneignaraldri skalt þú nota örugga getnaðarvörn meðan á töku Terrosa stendur. Ef þú verður þunguð á meðan þú notar Terrosa, skal stöðva meðferð með Terrosa. Leitið ráða hjá lækninum eða lyfjafræðingi áður en þetta lyf er notað.

Akstur og notkun véla

Sumir sjúklingar hafa fundið fyrir svima eftir Terrosa sprautu. Ef þig svimar skaltu ekki aka eða nota vélar fyrr en þér líður betur.

Terrosa inniheldur natríum

Lyfið inniheldur minna en 1 mmól (23 mg) af natríum í hverjum skammti, þ.e.a.s. er sem næst natríumlaust.

3. Hvernig nota á Terrosa

Notaðu lyfið alltaf eins og læknirinn hefur sagt til um. Ef þú ert ekki viss um hvernig á að nota lyfið leitaðu þá upplýsinga hjá lækninum eða lyfjafræðingi.

Ráðlagður skammtur er 20 míkrógrömm (samsvarandi 80 míkrólítrum) sem er gefinn einu sinni á dag með sprautu undir húð (til notkunar undir húð), í læri eða kvið.

Sprautaðu þig ávallt á sama tíma dags, því það auðveldar þér að muna eftir að nota lyfið. Terrosa má gefa samtímis með máltíð.

Notaðu Terrosa daglega eins lengi og læknirinn hefur gefið fyrirmæli um. Meðferðarlengd með Terrosa ætti ekki að vera lengri en 24 mánuðir. Þú átt ekki að fá meira en eina 24 mánaða meðferð um ævina.

Læknirinn getur ráðlagt þér að nota Terrosa með kalki og/eða D-vítamíni. Læknirinn segir þér hversu mikið þú átt að taka á hverjum degi.

Terrosa má gefa með eða án matar.

Samrýmanlegar inndælingarnálar fylgja ekki með Terrosa.

Hægt er að nota áfyllta lyfjapennann með sprautunálum sem þróaðar eru samkvæmt ISO-staðli um pennanálar af stærðinni 29G til 31G (þvermál 0,25 – 0,33 mm) og eru á bilinu 5 mm til 12,7 mm á lengd og eru aðeins fyrir inndælingu undir húð.

Til að lyfið sé notað á réttan hátt er mjög mikilvægt að fylgja náið nákvæmu leiðbeiningunum um notkun áfyllta lyfjapennans sem fylgja með lyfinu.

Notaðu nýja nál fyrir hverja inndælingu til að koma í veg fyrir að nálin mengist og fargaðu nálinni á öruggan hátt eftir notkun.

Geymdu aldrei áfyllta lyfjapennann með nálinni áfastri.

Ekki má flytja lyfið yfir í sprautu.

Þú skalt sprauta Terrosa skömmu eftir að þú hefur tekið áfyllta lyfjapennann úr kæli. Settu lokið á áfyllta lyfjapennann og settu hann aftur í kælinn strax eftir að þú hefur notað hann. Geymdu hann í kæli áður en 28 daga meðferðartímabilið hefst og allan tímann meðan á því stendur.

Undirbúningur fyrir inndælingu

  • Til að tryggja rétta gjöf Terrosa skaltu ávallt lesa leiðbeiningarnar um notkun Terrosa áfyllta lyfjapennans sem fylgir með í öskju lyfsins.
  • Þvoðu hendurnar áður en þú meðhöndlar áfyllta lyfjapennann.
  • Kannaðu fyrningardagsetninguna á merkimiða áfyllta lyfjapennans áður en þú byrjar að nota lyfið. Gakktu úr skugga um að það séu að minnsta kosti 28 dagar fram að fyrningardagsetningu. Skráðu lotunúmer (Lot) og dagsetningu fyrstu inndælingar áfyllta lyfjapennans á dagatal. Einnig skaltu skrá dagsetningu fyrstu inndælingar á ytri öskju Terrosa (sjá viðkomandi reit á kassanum: {Fyrsta notkun:}).
  • Festu nýja inndælingarnál á áfyllta lyfjapennann og stilltu skammtinn í glugganum með því að snúa skammtastillingargikknum.

Inndæling Terrosa

  • Áður en þú sprautar Terrosa, skaltu hreinsa húðina þar sem þú ætlar að sprauta (læri eða kvið) samkvæmt leiðbeiningum læknisins.
  • Haltu varlega í fellingu af hreinsaðri húð og stingdu nálinni beint inn í húðina. Þrýstu á skammtastillingargikkinn og haltu honum inni í að minnsta kosti sex sekúndur til að tryggja að þú fáir allan skammtinn.
  • Um leið og þú hefur lokið sprautuninni skaltu festa ytra nálarlokið aftur á pennanálina og skrúfa lokið rangsælis til að fjarlægja pennanálina. Þetta heldur eftirstandandi Terrosa sæfðu og kemur í veg fyrir leka úr áfyllta lyfjapennanum. Þetta hindrar einnig að loft fari aftur inn í áfyllta lyfjapennann og að nálin stíflist.
  • Settu lokið á áfyllta lyfjapennann.
  • Fargaðu pennanálum á öruggan hátt með því að nota ílát fyrir oddhvöss áhöld (nálabox) eða samkvæmt fyrirmælum læknisins.

Ef notaður er stærri skammtur af Terrosa en mælt er fyrir um

Hafðu samband við lækni eða lyfjafræðing ef þú hefur, fyrir mistök, notað of mikið af Terrosa.

Áhrif ofskömmtunar sem búast má við geta meðal annars verið ógleði, uppköst, sundl og höfuðverkur.

Ef gleymist að nota Terrosa

Ef þú gleymir að sprauta þig eða getur ekki notað lyfið á vanalegum tíma, skaltu sprauta þig eins fljótt og auðið er þann daginn. Ekki á að tvöfalda skammt til að bæta upp skammt sem gleymst hefur að nota. Ekki má nota fleiri en eina inndælingu á dag.

Ef hætt er að nota Terrosa

Ef þú íhugar að hætta notkun Terrosa skalt þú ræða það við lækninn. Hann mun ráðleggja þér og ákveða hversu lengi þú átt að fá meðferð með Terrosa.

Leitið til læknisins eða lyfjafræðings ef þörf er á frekari upplýsingum um notkun lyfsins.

4. Hugsanlegar aukaverkanir

Eins og við á um öll lyf getur þetta lyf valdið aukaverkunum en það gerist þó ekki hjá öllum.

Algengasta aukaverkunin er verkur í útlim (aukaverkun mjög algeng, getur komið fyrir hjá fleirum en 1 af hverjum 10 einstaklingum). Aðrar algengar aukaverkanir (koma fyrir hjá allt að 1 af hverjum 10 einstaklingum) eru meðal annars ógleði, höfuðverkur og sundl. Ef þig svimar eftir sprautuna, skaltu setjast eða leggja þig uns einkennin líða hjá. Ef einkennin batna ekki, skaltu hafa samband við lækni, áður en meðferð er haldið áfram. Tilkynnt hefur verið um yfirlið eftir notkun teriparatids.

Ef þú finnur til óþæginda á stungusvæði, svo sem hörundsroða, verkja, bólgu, kláða, marbletta eða minniháttar blæðinga (sem er algengt), líða þau venjulega hjá á nokkrum dögum eða vikum. Annars skaltu hafa samband við lækninn.

Mjög sjaldan (getur komið fyrir hjá fleirum en 1 af 1000 einstaklingum) getur ofnæmi komið fram hjá sumum sjúklingum sem einkennist af mæði, bólgu í andliti, útbrotum og brjóstverk. Þessi viðbrögð koma yfirleitt fram fljótlega eftir inndælingu. Í mjög sjaldgæfum tilfellum geta komið fram alvarleg og hugsanlega lífshættuleg ofnæmisviðbrögð að meðtöldum bráðaofnæmisviðbrögðum.

Aðrar aukaverkanir eru meðal annarra:

Algengar (geta komið fyrir hjá allt að 1 af hverjum 10 einstaklingum)

  • kólesterólhækkun í blóði
  • þunglyndi
  • taugaverkur í fæti
  • yfirliðstilfinning
  • snúningstilfinning
  • óreglulegur hjartsláttur
  • mæði
  • aukin svitamyndun
  • sinadráttur
  • orkuleysi
  • þreyta
  • brjóstverkur
  • lágur blóðþrýstingur
  • brjóstsviði (sársaukafull eða stingandi tilfinning rétt fyrir neðan bringubein)
  • uppköst
  • haull í þeim hluta meltingarvegar sem liggur milli koks og maga og fæðan berst um (vélindisgapshaull)
  • lágt gildi blóðrauða eða lítill fjöldi rauðra blóðkorna (blóðleysi)

Sjaldgæfar (geta komið fyrir hjá allt að 1 af hverjum 100 einstaklingum)

  • aukinn hjartsláttur
  • óeðlileg hjartahljóð
  • öndunarerfiðleikar
  • gyllinæð
  • þvagleki
  • aukin þvaglátaþörf
  • þyngdaraukning
  • nýrnasteinar
  • vöðvaverkir og liðverkir. Sumir sjúklingar hafa fengið alvarlegan krampa eða verk í bak sem leiddi til innlagnar á sjúkrahús
  • kalkhækkun í blóði
  • þvagsýruhækkun í blóði
  • hækkun á ensími sem kallast alkalískur fosfatasi

Mjög sjaldgæfar (geta komið fyrir hjá allt að 1 af hverjum 1000 einstaklingum)

  • skert nýrnastarfsemi, þar með talin nýrnabilun
  • bólga, aðallega á höndum, fótum og fótleggjum

Tilkynning aukaverkana

Látið lækninn eða lyfjafræðing vita um allar aukaverkanir. Þetta gildir einnig um aukaverkanir sem ekki er minnst á í þessum fylgiseðli. Einnig er hægt að tilkynna aukaverkanir beint samkvæmt fyrirkomulagi sem gildir í hverju landi fyrir sig, sjá Appendix V. Með því að tilkynna aukaverkanir er hægt að hjálpa til við að auka upplýsingar um öryggi lyfsins.

5. Hvernig geyma á Terrosa

Geymið lyfið þar sem börn hvorki ná til né sjá.

Ekki skal nota lyfið eftir fyrningardagsetningu sem tilgreind er á öskjunni og áfyllta lyfjapennanum á eftir EXP. Fyrningardagsetning er síðasti dagur mánaðarins sem þar kemur fram.

Geymið ávallt í kæli (2°C – 8°C). Eftir notkun skal áfyllti lyfjapenninn settur strax aftur í kæli. Má ekki frjósa.

Hafið pennalokið á áfyllta lyfjapennanum til varnar gegn ljósi.

Þú getur notað Terrosa í allt að 28 daga eftir fyrstu sprautun, svo fremi sem áfyllti lyfjapenninn er geymdur í kæli (2°C til 8°C).

Forðist að geyma áfyllta lyfjapennann nálægt frystihólfi til að fyrirbyggja að hann frjósi. Ekki má nota Terrosa ef það hefur frosið.

Áfylltum lyfjapenna skal fargað samkvæmt leiðbeiningum 28 dögum eftir fyrstu notkun, jafnvel þótt hann sé ekki tómur.

Terrosa inniheldur tæra og litlausa lausn. Ekki má nota Terrosa ef agnir eru í lausninni, eða ef lausnin er skýjuð eða lituð.

Ekki má skola lyfjum niður í frárennslislagnir eða fleygja þeim með heimilissorpi. Leitið ráða í apóteki um hvernig heppilegast er að farga lyfjum sem hætt er að nota. Markmiðið er að vernda umhverfið.

6. Pakkningar og aðrar upplýsingar

Terrosa inniheldur

  • Virka innihaldsefnið er teriparatid. Hver skammtur með 80 míkrólítrum inniheldur 20 míkrógrömm af teriparatidi. Einn áfylltur lyfjapenni með 2,4 ml inniheldur 600 míkrógrömm af teriparatidi (samsvarandi 250 míkrógrömmum í ml).
  • Önnur innihaldsefni eru: ísediksýra, mannitól, metakresól, natríumacetat tríhýdrat, saltsýra (til að stilla pH), natríumhýdroxíð (til að stilla PH) og vatn fyrir stungulyf (sjá kafla 2 – Terrosa inniheldur natríum).

Lýsing á útliti Terrosa og pakkningastærðir

Terrosa er litlaust og tært stungulyf, lausn (stungulyf). Það fæst í áfylltum lyfjapenna. Hver áfylltur lyfjapenni inniheldur 2,4 ml af lausn sem nægir í 28 skammta.

Pakkningastærðir: 1 áfylltur lyfjapenni eða 3 áfylltir lyfjapennar í öskju.

Ekki er víst að allar pakkningastærðir séu markaðssettar.

Markaðsleyfishafi og framleiðandi

Gedeon Richter Plc.

Gyömrői út 19-21.

1103 Budapest

Ungverjaland

Þessi fylgiseðill var síðast uppfærður

Upplýsingar sem hægt er að nálgast annars staðar Ítarlegar og uppfærðar upplýsingar um lyfið má einnig nálgast með því að skanna QR kóðann sem finna má hér að neðan eða á ytri öskjunni með snjallsíma. Sömu upplýsingar má einnig finna á eftirfarandi vefslóð: www.terrosapatient.com

Ítarlegar upplýsingar um lyfið eru birtar á vef Lyfjastofnunar Evrópu http://www.ema.europa.eu

Notkunarleiðbeiningar

Terrosa 20 míkrógrömm (µg)/80 míkrólítra stungulyf, lausn í áfylltum lyfjapenna

Notkunarleiðbeiningar

Mikilvægar upplýsingar

Þessi áfyllti Terrosa lyfjapenni er til þess að gefa fastan dagskammt af 80 míkrólítra Terrosa stungulyfi, lausn til meðferðar við beinþynningu.

Áfyllti lyfjapenninn inniheldur 28 skammta.

Ekki er hægt að stilla annan skammt en 80 míkrólítra.

Ef ekki tekst að stilla 80 míkrólítra skammt er penninn að verða tómur.

Ekki er hægt að fylla á Terrosa lyfjapennann, ekki má nota hann eftir 28 skammta.

Skýringar á hlutum

1. Lok

2. Nálartengi

3. Rörlykjuhaldari

4. Rörlykjustimpill

5. Gluggi

6. Skammtastillingargikkur

7. Pennanál

8. Innri nálarhlíf

9. Ytra nálarlok

10. Innsigli sem má rífa af

Pennanál fylgir ekki með í pennapakkningunni. Festa þarf nál áður en penninn er notaður (sjá skref 1c).

Áður en hafist er handa

Áður en þú byrjar að nota nýja Terrosa pennann skaltu lesa þessar leiðbeiningar í heild sinni. Fylgdu leiðbeiningunum nákvæmlega þegar þú notar pennann. Lestu einnig meðfylgjandi fylgiseðil.

Skráðu dagsetningu fyrstu inndælingar á dagatal.

Ekki deila pennanum eða nálum með öðrum, þar sem það getur valdið sýklasmiti.

Þvoðu þér um hendurnar fyrir hverja inndælingu.

Ekki má nota Terrosa penna ef hann er skemmdur eða ef einhver vafi liggur á því að hann virki rétt.

Undirbúðu allt sem þú þarft:

• sótthreinsiklútar
• áfyllta lyfjapennann
• pennanál

1. Penninn undirbúinn

1/a Fjarlægðu lokið af pennanum

  • Fjarlægðu pennalokið (1) með því að toga það af

1/b Athugaðu lyfið

  • Athugaðu lyfið
  • Athugaðu merkimiða Terrosa pennans til að ganga úr skugga um að þú sért með rétt lyf og að það sé ekki útrunnið.
  • Ekki nota Terrosa pennann ef:
    • penninn er skemmdur.
    • lausnin er skýjuð, lituð eða inniheldur agnir.

1/c Festu nál

  • Taktu nýja pennanál fyrir hverja inndælingu og notaðu aðeins pennanálar sem eru ráðlagðar í hlutanum „Samrýmanlegar pennanálar“ á baksíðu þessara notkunarleiðbeininga.
  • Ekki má nota pennanálina ef innsiglið er skemmt eða laust – fleygðu henni og sæktu aðra.
  • Fjarlægðu innsiglið (10).
  • Ýttu nálinni ofan á odd pennans og skrúfaðu hana á þar til hún festist tryggilega.
  • Togaðu ytra nálarlokið (9) af og geymdu það á öruggum stað, því þú munt þurfa að nota það til að fjarlægja nálina síðar. Haltu innri nálahlífinni (8) á nálinni til að forðast nálarstunguáverka.

2. Inndæling

2/a Stilltu skammt

Penninn inniheldur 28 fasta 80 míkrólítra skammta. Stilla þarf fasta skammtinn fyrir hverja daglega inndælingu.

  • Snúðu skammtastillingargikknum (6) þar til glugginn (5) sýnir örvarmerki og hnappurinn læsist – smellur ætti að heyrast þegar skammturinn hefur verið stilltur.
  • Örvarmerkið merkir að fasti dagskammturinn hafi verið stilltur og að penninn sé tilbúinn fyrir inndælingu.
  • Ef ekki tekst að stilla skammtinn er penninn að verða tómur. Notaðu annan penna.

2/b Veldu stungustaðinn

  • Lyfinu skal dælt inn í kvið eða efra hluta læris. Undirbúðu húðina eins og læknirinn hefur ráðlagt.
  • Hreinsaðu staðinn sem þú velur með sótthreinsiklút.
  • Togaðu innri nálahlífina varlega af (8) og fargaðu henni strax.

2/c Gefðu skammtinn

  • Haltu varlega í húðfellingu milli þumals og vísifingurs. Stingdu nálinni beint og varlega í húðina.
  • Þrýstu skammtastillingargikknum (6) alla leið niður og haltu honum niðri í að minnsta kosti 6 sekúndur til að tryggja að allur skammturinn sé gefinn – smellur heyrist þegar byrjað er að þrýsta gikknum niður, sem er eðlilegt.
  • Dragðu pennann hægt út. Mikilvægt:Athugaðu hvort glugginn sýnir „0“.

3. Eftir inndælingu

3/a Fjarlægðu nálina

  • Ýttu ytra nálarlokinu (9) gætilega aftur á pennanálina (7).
  • Gríptu um ytra nálarlokið (9) og skrúfaðu pennanálina (7) af.
  • Alltaf skal farga pennanálum á öruggan hátt með því að nota ílát fyrir oddhvöss áhöld (nálabox) eða samkvæmt fyrirmælum læknisins.

3/b Geymdu pennann

  • Settu pennalokið (1) aftur á pennann.
  • Settu pennann aftur í kæli við 2 til 8 °C strax eftir notkun.

3/c Fargaðu pennanum

Þegar farga þarf pennanum eftir notkun í 28 daga skal gæta varúðar og fylgja lýsingu í hlutanum „Förgun Terrosa penna og notaðra nála“ á bakhlið þessara notkunarleiðbeininga.

Bilanaleit

Fylgið leiðbeiningunum í töflunni ef fram koma spurningar um notkun Terrosa penna:

VandamálLausn
1. Litlar loftbólur eru sjáanlegar í rörlykjunni.Lítil loftbóla hefur ekki áhrif á skammtinn og veldur engum skaða.
2. Ekki er hægt að festa nálina á.Notið aðra nál í staðinn.
Ef ekki tekst heldur að festa hina nálina skal hafa samband við þjónustudeild.
3. Nálin er brotin/bogin/beygluð.Notið aðra nál í staðinn.
4. Ef óvart var reynt að dæla inn án þess að nál væri fest á.Festið á nál. Sjá má að nokkrir dropar leka úr henni. Penninn er nú aftur tilbúinn til notkunar. Stillið skammtinn og gefið hann inn.
5. Ekki er hægt að snúa skammtastillingargikknum upp að örvarmerkinu.Magn lyfsins sem er eftir í Terrosa pennanum er minna en 80 míkrólítrar. Notið nýjan Terrosa penna.
6. Glugginn fer ekki til baka í stöðuna „0“ eftir inndælingu.Ekki endurtaka inndælinguna sama dag.
Notið nýja nál og framkvæmið inndælinguna næsta dag.
Ef glugginn fer enn ekki aftur í stöðuna „0“ eftir inndælinguna skal ekki nota þennan penna; hafið samband við þjónustudeild.
7. Penninn lekurEkki nota þennan penna; hafið samband við þjónustudeild.

Aðrar mikilvægar upplýsingar

  • Þessi áfyllti Terrosa lyfjapenni inniheldur 28 skammta með 80 míkrólítrum af Terrosa stungulyfi, lausn í hverjum skammti til meðferðar við beinþynningu.
  • Ekki má flytja lyfið yfir í sprautu.
  • Notið Terrosa penna aðeins eins og læknirinn hefur mælt fyrir, eins og kemur fram í þessum notkunarleiðbeiningum og í Terrosa fylgiseðlinum.
  • Notið nýja nál fyrir hverja inndælingu.
  • Sjúklingar eldri en 18 ára sem gefa sér lyfið sjálfir, heilbrigðisstarfsmenn eða þriðju aðilar eins og fullorðnir aðstandendur geta notað Terrosa penna.
  • Blindir eða sjónskertir mega ekki nota Terrosa penna án aðstoðar frá einhverjum sem er til þess hæfur og þjálfaður. Hafið sambandi við lækninn ef um er að ræða vandamál með heyrn eða meðhöndlun.

Ef spurningar vakna um notkun Terrosa penna skal hafa samband við þjónustudeild okkar.

Símanúmer: XXXXXXXXXX

Netfang: XXXXXXXX

Samrýmanlegar pennanálar

  • Clickfine pennanál í stærð 29G til 31G (0,25 – 0,33 mm í þvermál) og 12, 10, 8 eða 6 mm að lengd.
  • BD Micro-Fine pennanál í stærð 29G til 31G (0,25 – 0,33 mm í þvermál) og 12;7, 8 eða 5 mm að lengd.

Geymsla og meðferð Terrosa Pen

  • Ekki má geyma Terrosa Pen með áfastri nál þar sem það getur valdið því að lofbólur myndist í rörlykjunni.
  • Flytjið og geymið Terrosa Pen við hitastig á milli 2 – 8 °C.
  • Ekki geyma Terrosa Pen í frysti. Ef lyfið hefur verið fryst skal fleygja búnaðinum og nota nýjan Terrosa Pen.
    • Geymið Terrosa Pen og pennanálar þar sem börn ná ekki til.
    • Meðhöndlið pennann gætilega. Ekki missa pennann og forðist að skella honum á harða fleti. Verjið fyrir vatni, ryki og raka.
    • Rakur klútur nægir til að hreinsa Terrosa Pen. Ekki má nota alkóhól (spritt), önnur leysiefni eða hreinsiefni. Terrosa Pen má aldrei fara á kaf í vatn þar sem það gæti skemmt pennann.
    • Ekki má nota Terrosa Pen ef hann er skemmdur eða ef einhver vafi leikur á því að hann virki rétt.

Förgun Terrosa Pen og notaðra nála

  • Farga skal Terrosa Pen 28 dögum eftir fyrstu notkun.
  • Áður en Terrosa Pen er fargað skal ávallt fjarlægja pennanálina.
  • Setjið notaðar nálar í ílát fyrir oddhvöss áhöld (nálabox) eða hart plastílát með öruggu loki. Ekki fleygja nálum beint í heimilissorp.
  • Ekki endurnýta full nálabox.
  • Spurðu læknirinn eða lyfjafræðing um hvernig á að farga pennanum og nálaboxinu.
  • Leiðbeiningar um meðhöndlun nála eiga ekki að koma í staðinn fyrir staðbundnar verklagsreglur, verklagsreglur heilbrigðisstarfsmanna eða stofnunar.

Markaðsleyfishafi: Gedeon Richter Plc., Ungverjaland

Framleiðandi: Gedeon Richter Plc., Ungverjaland

Þessi notendahandbók var síðast uppfærð í